Ragnar Sigurðsson, fyrrum landsliðskempa og núverandi umboðsmaður fékk sér sæti í Íþróttavikunni með Benna Bó, sem sýnd er á Hringbraut alla föstudaga. Hörður Snævar Jónsson, íþróttastjóri Torgs, sat með Ragnari í settinu en þeir fóru yfir fréttir vikunnar.
Það skýrðist í vikunni að Cristiano Ronaldo er búin að yfirgefa Manchester United.
Ragnar hefur átt í höggi við Ronaldo. „Hann var flottur. Ég hef spilað við Karim Benzema og ef maður snerti hann þá fór hann í fýlu. En ég var aldrei týpan að vera með leiðindi. Hann var bara í sínu og ábyggilega einn mesti atvinnumaður sem hefur verið í fótboltanum.“
Hörður sagði að Ronaldo hefði verið á toppnum í 15 ár. Það væri rosalegt og erfitt að gera sér í hugarlund hvernig hugurinn á slíkum manni virkar. Þegar sagan væri skoðuð má sjá að Maradona hafi verið á toppnum í fjögur til fimm ár. Ronaldo hinn brasilíski var á toppnum í svipaðan tíma og Ronaldinho. Marco Van Basten eitthvað álíka.
„Frá 2007 til 2022 hefur Ronaldo og Messi átt fótboltasviðið, sem er ótrúlegt.“