Gareth Soutgate, þjálfari enska karlalandsliðsins, hefur staðfest að Harry Kane verði með liðinu á morgun gegn Bandaríkjunum.
Kane fór meiddur af velli í fyrsta leik Heimsmeistarakeppninnar, þegar England vann Íran 6-2.
Aðdáendur urðu afar áhyggjufullir þegar þeir sáu Kane svo ganga út í liðsrútu Englands með umbúðir um ökklann.
Í gær sagði markvörðurinn Jordan Pickford hins vegar að í góðu lagi væri með Kane og nú hefur Southgate staðfest tíðindin.
England og Bandaríkin mætast í afar áhugaverðri rimmu í B-riðli annað kvöld. Síðarnefnda liðið gerði 1-1 jafntefli við Wales í sínum fyrsta leik á mótinu.
Leikurinn á morgun hefst klukkan 19 að íslenskum tíma.