Daníel Laxdal hefur ákveðið að framlengja samningi sínum við Stjörnuna um eitt ár en félagið greinir frá.
„Danna þarf ekki að kynna fyrir Garðbæingum en hann hefur barist með okkur í mörg ár og erum við gífurlega ánægð með hans ákvörðun um að halda áfram með okkur,“ segir á vef Stjörnunnar en Daníel er í raun Herra Stjarnan.
Hann hefur verið leiðtogi liðsins í mörg ár en Daníel ólst upp hjá félaginu og hefur alla tíð haldið tryggð við það.
“Það er einstakt fyrir hvert félag eða í raun samfélag að fá að njóta þess að fylgjast með mönnum eins og Danna, -mönnum sem gera allt sem í þeirra valdi stendur til að ná árangri fyrir sitt lið og eru tilbúnir að leggja sitt af mörkum. Fyrir okkur Garðbæinga og Stjörnufólk almennt er það heiður að Danni hafi ákveðið að taka slaginn áfram með okkur enda hefur frammistaða hans í sumar verið mjög góð og stuðningur hans við unga leikmenn sem eru að stíga sín fyrstu skref er ómetanlegur”. segir Helgi Hrannarr, formaður mfl. ráðs karla.
“Ég er hrikalega ánægður með þessa ákvörðun hjá mér að halda áfram enda finnst mér ég enn hafa fullt fram að færa og finn að við erum að gera ótrúlega spennandi hluti og vonast til að fólk styðji okkur enn betur á komandi tímabili þar sem við ætlum okkur stóra hluti!” segir Daníel Laxdal