Zinedine Zidane segir að það sé ekki langt þar til fólk muni sjá hann stýra knattspyrnuliði á ný.
Franska goðsögnin hefur ekki starfað við þjálfun frá því hann yfirgaf Real Madrid í fyrra. Hann stýrði liðinu fyrst frá 2016 til 2018. Hann vann Meistaradeild Evrópu þrjú ár í röð á þeim tíma.
Hann sneri aftur 2019 og stýrði Real Madrid þar til í fyrra. Auk þriggja Meistaradeildartitla vann Zidane Spánarmeistaratitilinn tvisvar hjá spænska stórveldinu.
„Ég kem aftur fljótlega. Bíðið bara aðeins, það gerist fljótlega,“ segir Zidane við franska fjölmiðla.
„Það er ekki langt þar til ég mun fara að þjálfa aftur,“ bætir hann við.
Það verður afar spennandi að sjá hvaða starf þessi merki stjóri tekur að sér næst. Hann var orðaður við Paris Saint-Germain í heimalandinu í sumar.