Pep Guardiola, stjóri Manchester City, hefur grínast með það að Ilkay Gundogan muni ekki spila fleiri mínútur á tímabilinu.
Þetta segir Guardiola eftir ummæli eiginkonu Gundogan sem tjáði sig um veitingalífið í Manchester og hafði ekki góða hluti að segja.
Sara, eiginkona Gundogan, heldur því fram að allir veitingastaðir í Manchester bjóði upp á slæman mat en Guardiola er ekki sammála.
Spánverjinn hefur boðið hjónunum að kíkja á sinn veitingastað, Tast, þar sem þau fá vonandi að smakka á góðum mat.
,,Það sem pirrar mig er að þau hafa ekki enn mætt á minn veitingastað, það er svekkjandi,“ sagði Guardiola.
,,Gundo mun ekki spila eina mínútu í viðbót á tímabilinu. Ég mun bjóða henni og Gundo í mat og auðvitað verður hann almennilegur.“