Fréttir um að Valur ætli ekki að bjóða fjölda leikmanna nýjan samning eru ekki réttar. Þetta segir Sigurður Pálsson framkvæmdarstjóri knattspyrnudeildar við 433.is.
„Það eru sögusagnir um það að aðrir leikmenn sem eru að renna út á samning hjá Val að það verði ekki endursamið við þá. Það eru skilaboð frá nýjum þjálfara að hann sjái ekki að hann þurfi á þeim að halda,“ sagði Gummi Ben í Stúkunni í gær og á þar við Arnar Grétarsson sem tekur við Val eftir tímabilið.
Nefnt var að Birkir Már Sævarsson væri í þessum hópi en Sigurður segir í samtali við 433.is að unnið sé í þessum málum.
Einhverjum standi til boða að vera áfram í Val en ekki öllum. „Það er eins og gengur og gerist í þessum málum,“ segir Sigurður.
Birkir Heimisson, Sebastian Hedlund, Arnór Smárason, Orri Sigurður Ómarsson, Rasmus Christiansen, Lasse Petry og fleiri eru að verða samningslausir.
Búist er við að nokkrir af þeim verði í raun áfram hjá félaginu samkvæmt Sigurði sem segir viðræður vera í gangi.