Sparkspekingurinn Paul Merson segir að sala Liverpool á Sadio Mane til Bayern Munchen í sumar séu verstu viðskipti í sögunni.
Liverpool seldi Mane til Bayern fyrir 35 milljónir punda. Senegalinn átti aðeins ár eftir af samningi. Liðið hefur lítið getað án hans í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.
„Ég hef sagt það frá fyrsta degi, að selja Sadio Mane voru verstu viðskipti í sögunni. Hann skorar stór, stór mörk,“ segir Merson.
„Hann leiddi með fordæmi fremst á vellinum, pressaði á menn. Upphæðin sem þeir seldu hann á, ég skil það ekki.
Að selja hann fyrir rúmar 30 milljónir punda, sem er ekki mikið í þessum bransa, hefði ekki verið betra að leyfa honum að fara frítt á næsta ári.“
Merson bendir á að það kosti Liverpool mun meira en 30 milljónir punda að missa af sæti í Meistaradeild Evrópu.
„Þetta hefur bitið þá í rassinn og gæti kostað þá miklu meira en 30 milljónir punda eftir tímabilið. Ef Arsenal vinnur á sunnudag er Liverpool ekki að fara að ná þeim, þá er bara pláss fyrir tvö lið í topp fjórum.“
Darwin Nunez var keyptur í sóknarlínu Liverpool í sumar fyrir 85 milljónir punda. Merson er ekki hrifinn. „Hann er ekki í sömu deild eins og er.“