Sóknarmaðurinn Sadio Mane hefur verið mikið í umræðunni í sumar eftir að hafa komið til Bayern Munchen frá Liverpool.
Talað hefur verið um að Mane sé óánægður í herbúðum Bayern og sé ekki að ná að aðlagast hjá félaginu.
Mane var lengi einn allra besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar en hefur farið hægt af stað í Þýskalandi miðað við gæðin sem hann býr yfir.
Hasan Salihamidzic, yfirmaður knattspyrnumála Bayern, hefur þó engar áhyggjur og segir að Mane sé einfaldlega að venjast nýju umhverfi.
,,Sadio þarf ennþá smá tíma, hann þarf að venjast Bundesligunni og hann mun gera það. Ég ræði við hann reglulega,“ sagði Salihamidzic.
,,Ég veit hvernig það er að koma inn í nýtt lið, inn í nýja borg, nýtt land, inn í nýja menningu. Sadio er að aðlagast og bráðum verður allt mun eðlilegra fyrir hann.“
,,Við munum fá að sjá það á vellinum. Hann er einn besti knattspyrnumaður heims.“