Þorkell Máni Pétursson, sparkspekingur með meiru, segir ekkert athugavert við það að formaður KSÍ, Vanda Sigurgeirsdóttir, hafi heyrt hljóðið í Heimi Hallgrímssyni þó svo að Arnar Þór Viðarsson sé þjálfari karlalandsliðsins.
Vanda staðfesti við Fréttablaðið í gær að hún hafi rætt við Heimi í sumar.
Gengi karlalandsliðsins hefur ekki verið upp á marga fiska undanfarið. Liðið spilaði þó tvo fína leiki gegn Venesúela og Albaníu á dögunum.
„Það var fullkomlega eðlilegt að hún skyldi ræða við Heimi. Landsliðsgluggarnir hafa ekki verið frábærir og það hefði verið skrýtið ef formaður KSÍ hefði ekki hringt í sigursælasta þjálfara landsins og spurt hvort hann væri á lausu ef illa skyldi ganga áfram,“ segir Máni í Sportpakka Stöðvar 2 í gærkvöldi.
„Mér fannst líka frábært að Vanda hafa gengist við því að taka símtalið. Hún tók ekki upp á því eins og oft þegar menn lenda í erfiðum spurningm að segja ekki satt og rétt frá.“
Máni er sáttur með vinnubrögð Vöndu. „Mér finnst formaður KSÍ hafa staðið sig mjög vel í þessu máli.“