Roberto Mancini, landsliðsþjálfari Ítalíu, baunaði á eigin leikmenn í gær eftir þó góðan 2-0 sigur á Ungverjalandi.
Leikið var í Þjóðadeildinni en Ítalía tryggði sér sæti í úrslitakeppni A deildar með sigrinum.
Ungverjaland hefur komið verulega á óvart í keppninni og vann lið eins og Þýskaland sem og England í riðlinum.
Alls ekkert lamb að leika sér við á velli en þrátt fyrir góðan sigur ákvað Mancini að gagnrýna eigin leikmenn fyrir frammistöðuna í seinni hálfleik.
,,Við gerðum vel í 70 mínútur en ég var langt frá því að vera hrifinn af síðustu 20 mínútunum,“ sagði Mancini.
,,Þegar þú ert 2-0 yfir þá þarftu að stjórna leiknum, við misstum stjórn og leyfðum þeim að pressa okkur upp við vegg, ég var langt frá því að vera hrifinn.“