Tottenham ætlar að bjóða framherja sínum Harry Kane nýjan samning. Félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano segir frá þessu.
Samningur hins 29 ára gamla Kane við Tottenham rennur út eftir næstu leiktíð. Það var hávær orðrómur um það á dögunum að Bayern Munchen ætlaði að reyna að krækja í leikmanninn næsta sumar, þegar ár verður eftir af samningi hans.
Kane vildi komast frá Tottenham fyrir rúmu ári síðan. Þá héldu margir að hann væri á leið til Manchester City. Allt kom hins vegar fyrir ekki.
Nú er staðan hjá Kane önnur og er hann opinn fyrir því að gera nýjan samning í Norður-Lundúnum.
Bayern Munchen hefur áhuga á leikmanninum en hefur hingað til ekki fylgt þeim áhuga eftir með því að leggja fram tilboð á borð Tottenham.