Massimo Cellino, fyrrum eigandi Leeds, hafði ekki áhuga á að semja við varnarmanninn Virgil van Dijk er Hollendingurinn lék með Celtic.
Frá þessu greinir Graham Bean en hann vann á þessum tíma með Dave Hockaday hjá Leeds en hann var þá stjóri félagsins.
Hockaday hafði tekið eftir hæfileikum Van Dijk og vildi fá hann til Leeds en án árangurs vegna eiganda félagsins.
Van Dijk er í dag talinn einn besti varnarmaður heims en hann leikur með Liverpool.
,,Ég og Dave náðum vel saman, hann var mjög vinalegur náungi eins og aðstoðarmaður hans Junior Lewis,“ sagði Bean.
,,Sannleikurinn var þó sá að þeir voru í of djúpri laug hjá Leeds. Dave náði hins vegar að átta sig á hæfileikum tveggja góðra leikmanna og annar þeirra var Virgil van Dijk.“
,,Því miður þá hundsaði Cellino hans beiðni og ákvað að semja frekar við Guiseppe Bellusci á láni frá Catania.“