Franskir og spænskir miðlar segja frá því í dag að Kylian Mbappe verði að öllum líkindum áfram í herbúðum PSG. Hann hefur rætt við Real Madrid en PSG er að bjóða honum pakka sem erfitt er að hafna.
Mbappe langar að ganga í raðir Real Madrid en PSG er að bjóða honum að verða launahæsti leikmaður í heimi og í raun ráða öllu hjá félaginu.
Samkvæmt fréttum hefur PSG boðið Mbappe að þéna 4 milljónir punda á mánuði og að auki fær hann 100 milljónir punda fyrir að skrifa undir nýjan samning.
661 milljón í mánaðarlaun gerir Mbappe að launahæsta íþrottamanni í heimi og 16 milljarðar fyrir það eitt að skrifa undir nýjan samning.
Að auki kemur fram í fréttum að PSG hafi boðið Mbappe að stjórna í raun öllu sem skiptir máli hjá félaginu.
Þar segir að Mbappe fái að ráða hvort þjálfari verði rekinn eða ekki og hvaða leikmenn félagið kaupir eða selur. Hann fái að vera með í ráðum um allt sem skiptir máli.
Þessi 23 ára leikmaður er einn besti knattspyrnumaður í heimi skoðar málið, hann mun svo greina frá því á sunnudag hver ákvörðun hans er.