Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari Íslands situr nú og reynir að setja saman landsliðshóp sem kemur saman í júní og leikur fjóra leiki.
Þrír af þessum leikjum verða í Þjóðadeildinni en að auki verður æfingaleikur gegn San Marínó leikinn ytra.
Samkvæmt öruggum heimildum 433.is hefur Arnar Þór Viðarsson reynt að sannfæra Hólmar Örn Eyjólfsson varnarmann Vals um að snúa aftur í landsliðið.
Hólmar ákvað á síðasta ári að hætta að spila með landsliðinu en þessi 32 ára gamli varnarmaður gekk í raðir Vals á dögunum og hefur spilað vel í Bestu deildinni.
Samkvæmt heimildum 433.is hefur Hólmar ekki tekið ákvörðun um það hvort hann snúi aftur en Arnar Þór mun kynna hóp sinn í næstu vikum.
Hólmar hefur spilað 37 landsleiki fyrir Íslands en hann átti langan og farsælan feril erlendis áður en hann snéri aftur heim.