Jake Daniels, leikmaður Blackpool í ensku b-deildinni í fótbolta, kom út úr skápnum í viðtali á Sky Sports í dag. Daniels er 17 ára gamall og þykir mikið efni.
Hann er aðeins annar leikmaðurinn í knattspyrnu karla sem er opinberlega samkynhneigður í dag. Hinn er Joshua Cavallo, leikmaður Adelaide United í Ástralíu.
„Ég vona að með því að koma út úr skápnum geti ég verið fyrirmynd fyrir aðra að stíga fram. Ég er aðeins 17 ára gamall en ég er viss um að ég vil gera þetta og ef ég get hjálpað öðrum að gera það sama þá er það frábært,“ sagði Daniels.
„Ég hélt í langan tíma að ég þyrfti að fela sannleikann af því að ég vildi vera, og er í dag, atvinnumaður í fótbolta. Ég spurði sjálfan mig að því hvort ég ætti að bíða þangað til ég legði skóna á hilluna með að koma út úr skápnum. Það er enginn annar leikmaður hér á landi opinberlega samkynhneigður.“
„Ég vissi hins vegar að ég þyrfti þá að ljúga í langan tíma og gæti ekki verið ég sjálfur og lifað lífinu á mínum forsendum,“ bætti Daniels við sem hefur skorað 30 mörk á leiktíðinni og kom inn á í sínum fyrsta leik með aðalliðinu gegn Peterborough á þessu ári.
Daniels hefur notið mikils stuðnings innan knattspyrnuheimsins en félög í ensku úrvalsdeildinni settu færslur á samfélagsmiðla sína honum til stuðnings í dag.