Liverpool og Chelsea mætast í úrslitaleik enska bikarsins á Wembley í dag. Leikurinn hefst klukkan 15:45 að íslenskum tíma.
Chelsea leikur til úrslita i enska bikarnum þriðja árið í röð meðan söguleg ferna er enn í sjónmáli Liverpool. Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City, sagði fyrir stuttu að allir á Englandi héldu með Liverpool í baráttunni við City um enska meistaratitilinn.
Thomas Tuchel segir erfitt að vera ósammála orðum Guardiola. „Það er mikil samúð með Liverpool, ég finn það á landsvísu og ég skil það,“ sagði Tuchel á blaðamannafundi fyrir úrslitaleikinn.
„Það er auðvitað vegna Jurgen en líka vegna þess hvernig klúbburinn er rekinn og hvað hann stendur fyrir og hvernig aðdáendurnir styðja liðið.
„Þetta eru sögulegir tímar fyrir félagið og það er mikill skilningur með því. Ef þú berst gegn því eins og Pep í mörg, mörg ár, þá skil ég hvernig honum líður og hvað hann er að fara.“