Liverpool varð í dag enskur bikarmeistari í áttunda sinn eftir sigur gegn Chelsea í vítaspyrnukeppni.
Liverpool varð einnig enskur deildarbikarmeistari fyrr á leiktíðinni eftir samskonar sigur gegn Chelsea en þá vann Liverpool 11-10 í vítaspyrnukeppni.
Markalaust var eftir framlengingu í dag, rétt eins og í deildarbikarleiknum. Cesar Azpilicueta fyrirliði Chelsea varð fyrstur til að klúðra vítaspyrnu er skot hans hafnaði í stönginni.
Sadio Mane hefði getað unnið bikarinn fyrir Liverpool úr fimmtu spyrnu liðsins en Edouard Mendy varði frá honum. Það var svo Konstantinos Tsimikas sem tryggði Liverpool sigurinn í bráðabana eftir að Alisson hafði varið spyrnu Mason Mount.
Þetta var annar titill Liverpool á leiktíðinni og draumurinn um fernuna lifir góðu lífi. Liverpool er þremur stigum á eftir Manchester City í ensku úrvalsdeildinni þegar tvær umferðir eru eftir og mætir Real Madrid í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í lok maí.