Varnarmaðurinn Arnar Þór Guðjónsson var í byrjunarliði Raufoss er liðið tók á móti Bryne í næstefstu deild Noregs í fótbolta í dag.
Raufoss leiddi 1-0 í hálfleik eftir mark Herman Haugen á 15. mínútu og Arnar bætti við öðru marki tæplega tuttugu mínútum fyrir leikslok. Arnar nældi sér í gult spjald stuttu síðar en lokatölur 2-0 fyrir Arnar og félaga í Raufoss.
Þetta var fyrsti sigur Raufoss á tímabilinu en liðið er með sex stig eftir fimm umferðir.
Þá vann Íslendingalið Sogndal 2-1 sigur á Kongsvinger á heimavelli fyrrnefnda liðsins. Hörður Ingi Gunnarsson, Jónatan Ingi Jónsson og Valdimar Gunnarsson voru allir í byrjunarliði Sogndal.
Gestirnir tóku forystuna í leiknum strax á sjöttu mínútu með marki frá Jesper Grundt. Jónatan Ingi lagði upp jöfnunarmark Sogndal á 26. mínútu þegar Mathias Blårud kom boltanum í netið og Hörður Ingi lagði svo upp sigurmarkið fyrir Andreas Hoven tíu mínútum síðar.
Sogndal er nú taplaust eftir fyrstu fimm umferðirnar en liðið hefur unnið þrjá og gert tvö jafntefli og situr í fjórða sæti með 11 stig.