Besta deild karla heldur áfram að rúlla. Valur tók á móti ÍBV í fyrsta leik gærdagsins. Nokkuð jafnræði var á með liðunum í fyrri hálfleik sem var fínasta skemmtun. Komust bæði lið á blað á fyrsta stundarfjórðungi leiksins. Guðmundur Andri Tryggvason kom Val yfir á 9. mínútu með góðu skoti.
Það liðu aðeins rúmar fimm mínútur áður en Eyjamenn jöfnuðu. Sigurður Arnar Magnússon skoraði þá með skalla eftir hornspyrnu sem Felix Örn Friðriksson tók. Ekki var eins mikið um að vera í seinni hálfleik en Valur sótti í sig veðrið þegar á leið. Þegar stundarfjórðungur lifði leiks komu heimamenn knettinum í netið en var markið dæmt af vegna rangstöðu.
Á 81. mínútu skoruðu þeir svo fullkomlega löglegt mark. Það gerði Arnór Smárason með geggjuðu skoti fyrir utan teig.
Ernir Eyjólfsson fór á völlinn og smellti þessum flottu myndum.