Fundargerð KSÍ frá því í síðustu viku er nú opinber á vef Knattspyrnusambands Íslands. Þar er farið yfir málefni Eiðs Smára Guðjohnsen sem lét formlega af störfum sem aðstoðarþjálfari landsliðsins í dag.
Eiður og KSÍ sömdu um starfslok eftir að persónuleg málefni hans höfðu ratað á borð stjórnar KSÍ. Málið tengist atviki sem kom upp í Norður-Makedóníu.
Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ var með í ferðinni en í fundargerð KSÍ kemur fram að Vanda hafði hringt í alla starfsmenn stjórnar áður en stjórnin fundaði á þriðjudag í síðustu viku. Að fundi loknum var tilkynnt að Eiður væri hættur.
„Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ opnaði umræðu um landsliðsmál. Rætt var um ferð A landsliðs karla til Rúmeníu og Norður-Makedóníu. Áður hafði formaður hringt í alla stjórnarmeðlimi og greint þeim frá þeim málum sem til umræðu komu,“ segir í fundargerð KSÍ sem kom út í dag.
Eiður hafði fengið áminningu í starfi síðasta sumar og segir. „Þar var rætt um starf og stöðu aðstoðarlandsliðsþjálfara A-liðs karla í kjölfar atvika sem hafa komið til kasta sambandsins. Fyrir liggur áminning í starfi til umrædds starfsmanns frá því sl. sumar. Niðurstaða málsins varð sú að stjórn KSÍ og Eiður Smári Guðjohnsen komust að samkomulagi um starfslok hans sem aðstoðarþjálfari A landsliðs karla,“ segir í fundargerð en Arnar Þór Viðarsson þjálfari liðsins var sammála því að Eiður þyrfti frá að hverfa en Vanda vildi halda honum í starfi.
„Samkomulagið snýr að því að virkjað verður endurskoðunarákvæði í ráðningarsamningi sem gerður var milli hans og KSÍ og mun hann láta af störfum 1. desember næstkomandi. Stjórn KSÍ þakkar Eiði Smára fyrir hans störf og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni.“