Samkvæmt spænska blaðinu Sport hafa Barcelona og Ferran Torres, leikmaður Manchester City, náð samkomulagi um að sóknarmaðurinn gangi til liðs við Katalóníustórveldið.
Spánverjinn er sagður aðalskotmark Xavi, stjóra Barcelona, í janúarglugganum.
Þá á hinn 21 árs gamli Torres að hafa látið Man City vita að hann vilji ganga til liðs við Börsunga.
Það er þó hins vegar þannig að Barcelona er í miklum fjárhagsvandræðum. Félagið þyrfti að selja nokkra leikmenn frá sér til þess að geta skrapað saman í kaupverðið á Torres. Félögin hafa ekki náð samkomulagi.
Torres hefur aðeins komið við sögu í fjórum leikjum í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð. Hann hefur reynslu úr La Liga þar sem hann lék með Valencia áður en hann gekk í raðir Man City fyrir síðustu leiktíð.