Demba Ba var í viðtali á dögunum og þar greindi hann frá því að leikmenn Chelsea hafi ekki haft gaman að því að eyðileggja drauma Liverpool um Englandsmeistaratitilinn með 2-0 sigri á Anfield árið 2014.
Liverpool var nálægt fyrsta Englandsmeistaratitlinum í nokkra áratugi árið 2014 en leikurinn á móti Chelsea gerði nánast út um vonir þeirra. Demba Ba og Willian skoruðu mörk Chelsea í leiknum en frægt er þegar Gerrard rann á grasinu fyrir annað markið. Liverpool tapaði svo 3-0 forystu gegn Crystal Palace í næsta leik.
„Við höfðum ekki gaman að því að eyðileggja drauma þeirra,“ sagði Demba Ba við The Athletic.
„Þetta hafði mikil áhrif á þá. En við höfðum ekki gaman að því að eyðileggja drauma þeirra, við vildum bara vinna.“
„Ég áttaði mig ekki á því hve stórt þetta var fyrr en nokkrum árum seinna þegar fólk var ennþá að tala um þetta. Það er enn talað um þetta.“