Harry Kane greindi frá því í gær að hann myndi ekki yfirgefa Tottenham í sumar, framherjinn vildi ólmur fara en Tottenham neitaði að selja hann.
Manchester City bauð í tvígang í Kane en Tottenham hafnaði báðum tilboðum, það síðara var upp á 125 milljónir punda.
„Ég verð áfram hjá Tottenham í sumar og verð 100 prósent einbeittur á að ná árangri með liðinu,“ skrifaði Kane og setur allt á hliðina með því að staðfesta að hann verði áfram í herbúðum félagsins.
Kane er fyrirliði enska landsliðsins en hann hefur ólmur viljað losna frá Tottenham. Nú er ljóst að hann fer ekki. Daniel Levy stjórnarformaður félagsins hefur verið harður í horn að taka og ætlaði sér ekki að missa Kane.
Levy ætlar núna að verðlauna Kane og bjóða honum nýjan samning og hækka laun hans í 330 þúsund pund á viku en í dag þénar Kane 230 þúsund pund á viku.
Hann getur því fengið 70 milljóna króna launahækkun á mánuði eða 840 milljónir í hækkun yfir árið. Vikulaun Kane yrðu þá 57 milljónir.