Þremur leikjum var að ljúka í Pepsi Max-deild karla. Breiðablik hafði betur gegn KA, KR sigraði ÍA og FH gerði markalaust jafntefli við Keflavík
KA tók á móti Breiðablik í Pepsi-Max deild karla á Greifavellinum. Blikar höfðu betur og sigruðu 0-2 og fóru þar með í toppsæti deildarinnar.
Fyrri hálfleikur var nokkuð jafn og gríðarleg barátta á vellinum. Lítið var um dauðafæri og bæði lið spiluðu nokkuð varfærnislega.
Blikar komust yfir strax í byrjun seinni hálfleiks með marki frá Kidda Steindórssyni. Tæpum 10 mínútum síðar tvöfaldaði Árni Vilhjálmsson forystuna eftir flotta skyndisókn. Þar við sat og 0-2 sigur Blika staðreynd.
KA 0 – 2 Breiðablik
0-1 Kristinn Steindórsson (´46)
0-2 Árni Vilhjálmsson (´55)
ÍA tók á móti KR í 18. umferð Pepsi Max deildar karla á Norðurálsvellinum í kvöld. KR hafði betur og sigraði 0-2.
Kjartan Henry Finnbogason kom KR yfir þegar um stundarfjórðungur var liðinn af leiknum. Skagamenn voru ósáttir við markið vegna bakhrindingar á Guðmund Tyrfingsson en markið var dæmt gott og gilt. Guðmundur Tyrfingsson varð svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark snemma í seinni hálfleik. Ekki komu fleiri mörk í leikinn og 0-2 sigur KR því staðreynd.
Sigurinn heldur KR áfram í Evrópubaráttu en útlitið versnar fyrir ÍA sem er í neðsta sæti deildarinnar.
ÍA 0 – 2 KR
0-1 Kjartan Henry Finnbogason (´14)
0-2 Guðmundur Tyrfingsson, sjálfsmark (´50)
FH tók á móti Keflavík á Kaplakrikavelli. Liðin mættust einnig um helgina og þá vann FH stórsigur. Í þetta skiptið lauk leiknum með markalausu jafntefli. Heimamenn voru meira með boltann í leiknum en skyndisóknir gestanna voru nokkuð hættulegar.
FH 0 – 0 Keflavík