Mikel Arteta, stjóri Arsenal, hefur verslað töluvert í félagsskiptaglugganum og hefur liðið eytt mest enskra félaga í þessum glugga. Arsenal hefur eytt rúmum 129 milljónum punda í Nuno Tavares, Albert Sambi Lokongo, Ben White, Martin Odegaard og Aaron Ramsdale.
Nú þegar farið er að síga á seinni hluta félagsskiptagluggans er stjórn Arsenal farin að leggja meiri áherslu á að losna við leikmenn úr liðinu. Arteta hefur samþykkt að liðið reyni að selja Bernd Leno, Hector Bellerin, Sead Kolasinac, Ainsley Maitland-Niles, Lucas Torreira, Willian, Reiss Nelson, Eddie Nketiah, Alexandre Lacazette og Aubameyang.
Það kemur á óvart að félagið sé tilbúið að selja stærstu stjörnu liðsins, Aubameyang, en hann skrifaði undir nýjan samning við félagið í september í fyrra. Hann hefur þó lítið getað eftir að sá samningur var undirritaður.
Það er möguleiki á að Arsenal nái að losna við einhverja leikmenn en líklega verður erfitt að losa Aubameyang vegna aldurs og himinhárra launa.