Ragnar Sigurðsson landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu hefur verulegar áhyggjur af framtíð landsliðsins í fótbolta. Þetta kemur fram í viðtali við hann sem birtir á vef Morgunblaðsins í dag.
Ragnar sem er 35 ára gamall er mættur heim til Íslands og leikur nú með Fylki í efstu deild karla.
„Mér finnst við ekki eiga nægilega marga góða unga leikmenn eins og staðan er í dag,“ sagði Ragnar í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.
Ragnar hefur spilað 97 landsleiki og farið á bæði EM og HM með landsliðinu. „Það er til fullt af efnilegum strákum en þetta er ekki nálægt því að vera eins og þegar Jói [Jóhann Berg Guðmundsson] og Gylfi [Gylfi Þór Sigurðsson] og fleiri komu inn í hópinn á einu bretti,“ sagði Ragnar.
„Það fer að koma tími á þetta lið sem við eigum og vonandi fer maður að heyra fleiri nöfn nefnd til sögunnar í kringum landsliðið. Það eru margir strákar að standa sig ágætlega erlendis en alls ekki nógu margir,“ sagði Ragnar meðal annars við Morgunblaðið.