West Ham vann öruggan sigur á Leicester á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.
Pablo Fornals kom heimamönnum yfir á 26. mínútu með marki eftir fyrirgjöf frá Said Benrahma.
Á 40. mínútu fékk Ayoze Perez, leikmaður Leicester, rautt spjald fyrir tæklingu á Fornals. Dómari leiksins notaðist við myndbandsdómgæslu til að komast að niðurstöðu.
Benrahma tvöfaldaði forystu West Ham á 56. mínútu. Caglar Soyuncu, miðvörður Leicester, átti þá slæma sendingu til baka beint á Michail Antonio, framherja West Ham. Hann lagði boltann á Benrahma sem skoraði.
Youri Tielemans minnkaði muninn fyrir gestina þegar rúmar 20 mínútur lifðu leiks.
Antonio kom West Ham þó í 3-1 á 80. mínútu með marki eftir sendingu frá Declan Rice. Með markinu tók hann fram úr Paolo Di Canio sem markahæsti leikmaður West Ham í úrvalsdeildinni. Hann fagnaði með því að lyfta útskornu pappaspjaldi af sjálfum sér á loft. Myndband af því má sjá neðst í fréttinni.
Antonio var aftur á ferðinni með mark á 84. mínútu. Undirbúninginn átti Vladimir Coufal.
Lokatölur urðu 4-1 í Lundúnum í kvöld. Frábær sigur West Ham sem er með fullt hús stiga eftir tvo leiki. Leicester hefur 3 stig.
Mega @Michailantonio 😂👏🏻
— SPORTbible (@sportbible) August 23, 2021