Liverpool hefur samþykkt að selja Svisslendinginn Xerdan Shaqiri til Lyon á 9.5 milljónir punda. BBC segir frá.
Shaqiri er 29 ára gamall og kom til Liverpool frá Stoke árið 2018 fyrir 13 milljónir punda. Hann byrjaði einungis fimm leiki fyrir Liverpool á síðustu leiktíð, og hefur ekki komið við sögu í tveimur leikjum Liverpool á nýju tímabili.
Þessi fyrrum leikmaður Bayern Munchen og Inter Milan vann ensku úrvalsdeildina og Meistaradeildina með Liverpool á tíma sínum hjá félaginu. Hann yrði annar leikmaður Liverpool til að ganga til liðs við franskt lið í sumar en Georginio Wijnaldum flutti sig yfir til Parísar eftir að samningur hans hjá Liverpool rann út.
Shaqiri skoraði átta mörk í 63 leikjum fyrir Liverpool, en sex þeirra komu á fyrsta tímabili kappans með þeim rauðklæddu.