Roy Keane var ósáttur við Fred eftir leik Southampton og Manchester United í dag. Leikurinn endaði með 1-1 jafntefli en mark Southampton kom eftir hálfíma leik þegar að skot Che Adams átti viðkomu í Fred og flaug fram hjá David de Gea í markinu.
Keane var á því að Fred ætti að gera mun betur í að loka á Che Adams.
„Fred og Maguire verða báðir að gera betur þegar einhver kemur nálægt þér í teignum,“ sagði Keane í viðtali á Sky Sports. „Fred, þú þarft að vera tilbúinn í manninn en hann ýtir bara út löppinni. Hann er óheppinn að boltinn fari í hann á leiðinni inn, en hann verður að gera mun, mun betur.“
Leikmenn United vildu fá aukaspyrnu í undirbúning marksins þegar að Jack Stephens vann boltann af Bruno Fernandes.
Graeme Souness og Keane voru ekki á einu máli um hvort United hefði átt að fá aukaspyrnu. „Mér finnst þetta ekki aukaspyrna vegna þess að Bruno Fernanes kemur líkamanum fyrir. Ég er ekki á því að þetta sé aukaspyrna, alls ekki,“ sagði Keane.
Souness var ekki á sama máli: „Ég vil að dómarinn láti leikinn ganga eins mikið og hægt er, en boltinn kemur til hans og hægra læri Stephens fer í vinstra læri Fernandes, hann reynir að fiska eitthvað þarna en mér finnst þetta samt vera brot.“