Víkingur R. og Valur mættust á Víkingsvellinum í sannkölluðum toppslag í úrvalsdeild karla í knattspyrnu í kvöld. Víkingur bar sigur úr býtum með tveimur mörkum gegn einu.
Kwame Quee kom Víkingum yfir á 23. mínútu eftir frábæra sókn sem endaði á því að Pablo Punyed sendi boltann fyrir á kollinn á Kwame sem skallaði boltann í netið. Viktor Örlygur Andrason kom Víkingum í 2-0 fimm mínútum síðar með frábæru einstaklingsframtaki. Viktor fékk boltann á miðjum vallarhelmingi Vals og hljóp inn á teig og hamraði boltanum í fjærhornið framhjá Hannesi.
Valsmenn byrjuðu seinni hálfleik af meiri krafti eftir arfaslakan fyrri hálfleik en tókst þó ekki að skora fyrr en í uppbótartíma. Varamaðurinn Kaj Leo í Bartalsstovu var þar að verki en lengra komust Valsmenn ekki og lokatölur 2-1 fyrir Víkinga.
Það er orðið ansi jafnt á topppnum en það munar sjö stigum á 1. og 5. sæti. Valur og Víkingur R. eru hnífjöfn á toppi deildarinnar, en bæði lið eru með 36 stig eftir 17 leiki. Breiðablik er í 3. sæti með 35 stig og á leik til góða á tvö efstu liðin.
Lokatölur:
Víkingur R. 2-1 Valur
1-0 Kwame Quee (23)
2-0 Viktor Örlygur Andrason (’28)
2-1 Kaj Leo í Bartalsstovu (’93)