Liverpool sigraði Burnley 2-0 í ensku úrvalsdeildinni í dag. Jota og Mane skoruðu mörk Liverpool í leiknum. Jurgen Klopp, þjálfari Liverpool, var ánægður með sigurinn en skaut á spilamennsku Burnley og telur að vernda þurfi leikmenn betur.
„Við þurfum alltaf að vera tilbúnir í alvöru baráttu og við vourm það í dag. Við sáum einvígin hjá Virgil og Joel við Barnes og Wood. Ég er ekki viss um að dómararnir hafi tekið rétta ákvörðun með þetta og mér líður eins og við höfum farið 10-15 ár til baka. Reglurnar eru bara eins og þær eru en það er ekki hægt að verja þetta,“ sagði Klopp við BT sport.
„Nú á að leyfa leiknum að fljóta en það veit enginn hvað það þýðir nákvæmlega. Ég er hrifinn af því þegar ákvarðanir eru sóknarliðinu í vil. En við þurfum að vernda leikmennina. Ef þú hefur gaman að svona leik horfðu þá á glímu.“
„Við spiluðum frábærlega á stórum köflum og þurftum að berjast töluvert. Það sem skiptir máli er að við unnum og enginn meiddist.“