Virgil van Dijk, miðvörður Liverpool, sneri aftur á völlinn í ensku úrvalsdeildinni í dag eftir að hafa verið lengi frá vegna meiðsla.
Hollendingurinn meiddist illa gegn Everton síðasta haust. Liðið saknaði hans sárt.
Liverpool vann góðan 0-3 sigur gegn nýliðum Norwich í fyrsta leik tímabilsins í deildinni í dag.
,,Þetta var erfiður leikur af mörgum ástæðum. 3-0 hljómar þægilegt en það komu kaflar, sérstaklega í lokin, þar sem við gerðum okkur erfitt fyrir. Kannski var þetta þreyta, kannski eitthvað sem við þurfum að bæta. Við munum fara yfir það en það er ekki hægt að vera neikvæður í kvöld,“ sagði van Dijk við Sky Sports eftir leik.
,,Ég er ánægður með að vera mættur aftur að hjálpa liðinu,“ bætti hann við.
,,Ég þarf leiki. Stjórinn veit það og ég veit það. Þetta var góð byrjun í dag. Nú tekur endurheimt við. Vonandi verð ég klár í næstu viku. Leikurinn gegn Burnley verður erfiður.“
Van Dijk nefndi að eitt af því sem hann hafi þurft að venjast í endurkomu sinni er það að öskra á liðsfélaga sína inni á vellinum. Fréttamaður Sky Sports spurði hann hvort að liðsfélagar hans væru sáttir með að hann væri farinn að öskra á þá aftur.
,,Vonandi,“ svaraði Hollendingurinn léttur.