Real Madrid ætlar sér að reyna að kaupa Kylian Mbappe um leið og félagið hefur selt Martin Ödegaard til Arsenal. Þetta segir spænska blaðið AS.
Hinn 22 ára gamli Ödegaard er sagður færast nær Arsenal. Hann var þar á láni seinni hluta síðasta tímabils. Kaupverðið myndi vera um 50 milljónir evra.
Ef kaup enska félagsins ganga eftir mun Real Madrid svo bjóða 150 milljónir evra í Mbappe, framherja Paris Saint-Germain.
Samningur Mbappe, sem er 22 ára gamall, hjá PSG rennur út eftir næstu leiktíð.
Mbappe hefur verið í París frá árinu 2017. Hann hefur þó reglulega verið orðaður frá félaginu á þeim tíma. Real Madrid er það félag sem hefur oftast verið nefnt til sögunnar sem hugsanlegur nýr áfangastaður Frakkans.