Asleigh Behan, kærasta knattspyrnumannsins Kalvin Phillips, segist hafa öskrað og grátið af gleði í matvörubúð þegar hún komst að því að kærastinn hafi verið valinn í enska landsliðshópinn í fyrsta skiptið.
Phillips, sem leikur fyrir Leeds, var óvænt valinn í landsliðshópinn fyrir leiki gegn Íslandi og Danmörku í Þjóðadeildinni síðasta haust.
,,Ég var í Aldi (matvörubúðakeðja) nálægt því þar sem ég vann þá til að ná mér í hádegismat þegar hann hringdi í mig. Ég var að fara að borga. Ég öskraði og grét um leið. Sá sem var að vinna hélt örugglega að ég væri geðveik,“ sagði Behan um það þegar hún frétti að Phillips hafði verið valinn.
Í kjölfar landsliðsverkefnisins átti Phillips gott tímabil með Leeds í ensku úrvalsdeildinni.
Hann var svo valinn í landsliðshóp Englands fyrir lokakeppni Evrópumótsins í sumar. Þar var hann fastamaður í liðinu sem fór alla leið í úrslitaleikinn. Eins og frægt er tapaði England gegn Ítalíu í vítaspyrnukeppni þegar þangað var komið.