Liverpool vann mjög þægilegan útisigur gegn Norwich í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.
Diogo Jota kom gestunum yfir á 26. mínútu. Trent Alexander-Arnold átti þá flotta fyrirgjöf sem Mohamed Salah framlengdi á Jota sem skoraði.
Liverpool ógnaði marki Norwich ekki mikið meira fram að hálfleik en stjórnaði hins vegar leiknum. Staðan í hálfleik var 0-1.
Gestirnir voru áfram betri aðilinn í seinni hálfleik. Á 65. mínútu tvöfaldaði Roberto Firmino forystu þeirra. Eftir skyndisókn renndi Salah boltanum á Brasilíumanninn sem skoraði auðveldlega.
Salah innsiglaði sigurinn sjálfur með marki með flottu skoti á 74. mínútu. Frábær leikur hans.
Nýliðarnir gerðu nokkra atlögu að marki Liverpool í lok leiks en tókst ekki að klóra í bakkann. Lokatölur 0-3.