Brentford sigraði Arsenal á heimavelli í opnunarleik tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.
Arsenal var meira með boltann í fyrri hálfleik en leikmenn Brentford voru þó beittari fram á við.
Sergi Canos kom heimamönnum verðskuldað yfir á 22. mínútu með flottu skoti. Það er hugsanlegt að boltinn hafi verið kominn aftur fyrir endamörk þegar Calum Chambers reyndi að hreinsa frá í aðdragandanum en dómari leiksins skoðaði það ekki frekar. Markið stóð. Þetta var fyrsta mark Brentford frá upphafi í ensku úrvalsdeildinni.
Staðan í hálfleik var 1-0.
Leikmenn Arsenal voru líflegir fyrri hluta seinni hálfleiks og sköpuðu sér nokkur færi.
Þeim var þó kippt rækilega niður á jörðina þegar Christian Norgaard tvöfaldaði forystu nýliðanna með skallamarki. Markið kom eftir langt innkast.
Einstaklega góð frammistaða nýliðanna í sínum fyrsta leik skóp að lokum 2-0 sigur. Frábær byrjun hjá þeim.
Það sama verður hins vegar ekki sagt um Arsenal. Margir vildu meina að sæti stjórans, Mikel Arteta, hafi nú þegar verið nokkuð heitt fyrir tímabil.