„Það hefur enginn verið ákærður eins og er,“ segir fjölmiðlafulltrúinn hjá lögreglunni í Manchester um málefni Gylfa Þórs Sigurðssonar við Morgunblaðið sem birtir grein þess efnis.
Samkvæmt lögreglunni í Manchester er rannsókn málsins enn í gangi og alls óvíst hvort gefin verði út ákæra eða ekki.
Líkt og fjallað hefur verið um áður er Gylfi Þór grunaður um brot gegn barni, sem hefur meðal annars orðið til þess að hann var sendur í leyfi frá félagi sínu Everton.
Hann var handtekinn og yfirheyrður vegna málsins í júlí en var sleppt úr haldi sama dag. Þá hafa breskur fjölmiðlar fullyrt að Gylfi harðneiti ásökunum sér á hendur.
Samkvæmt fréttum á Englandi heldur Gylfi sig í skjólshúsi á vegum félags hans Everton, þar sem einhver fylgist með honum.
Gylfi Þór hefur í gegnum árin verið besti knattspyrnumaður Íslands og leitt liðið í gegnum ótrúlegt tímabil og átt afar farsælan feril í ensku úrvalsdeildinni með Swansea, Tottenham og nú Everton.