Lionel Messi var kynntur til leiks á fréttamannafundi í París í dag en þessi magnaði knattspyrnumaður skrifaði undir tveggja ára samning við félagið í gær.
PSG ætlar sér stóra hluti í Meistaradeildinni og eru kaupin á Messi stórt skref í átt að því markmiði.
Á meðan Messi finnur sér hús í borginni þá mun hann dvelja á Le Royal Monceau hótelinu í París, ekki þarf að taka fram að um fimm stjörnu hótel er að ræða.
Messi og fjölskylda dvelur á svítunni á hótelinu og verður þar næstu daga og vikur á meðan húsnæðisleitin stendur yfir.
Nóttin á herberginu sem Messi dvelur á kostar rúmar 3 milljónir króna en það ætti að vera lítið vandamál fyrir Messi sem þénar fleiri milljarða á ári hverju í París.
Á hótelinu eru sex veitingastaðir, sundlaug og kvikmyndasalur svo fjölskyldunni ætti ekki að leiðast.