Greinahöfundur The Athletic telur að Jóhann Berg Guðmundsson kantmaður Burnley muni fá mikla ábyrgð á tímabilinu. Hann telur að ef meiðsli Jóhanns verða lítil sem enginn, þá sé Burnley í fínum málum.
Kantmaðurinn knái lék 22 leiki með Burnley í deildinni á síðustu leiktíð en árið áður voru þeir aðeins 12 vegna meiðsla.
„Burnley er einstök heild sem vinnur og tapar saman, þegar þeir spila vel þá er það iðulega allt liðið sem spilar vel. Það er yfirleitt ekki einn einstaklingur sem fær allt hrósið,“ segir í grein The Atheltic.
Andy Jones sem skrifar greinina telur hins vegar að tímabilið sé hins vegar stórt fyrir Jóhann Berg.
„Þetta er stórt tímabil fyrir Jóhann Berg Guðmundsson, hann hefur meiðst svo oft síðustu tímabil. Hann verður að vera heill, sérstaklega vegna þess að hópur Burnley er þunnskipaður. Hann hefur náð öllu undirbúningstímabilinu og vonin er að þessi vandamál séu að baki.“
Fram kemur í grein The Athletic að Burnley sé að leita að nýjum kantmönnum en erfiðlega hefur gengið að finna rétta kosti.