Enska götublaðið Daily Mail heldur því fram að Paul Pogba muni fara frítt frá Manchester United, hann hafi ekki áhuga á að skrifa undir nýjan samning.
Pogba var orðaður við PSG en ekkert verður að þeim félagaskiptum í sumar, PSG krækti í Lionel Messi og getur félagið ekki krækt í Pogba á sama tíma.
Talið er að Pogba muni taka eitt tímabil með United til viðbótar en hann hefur lengi viljað yfirgefa félagið, hann fari svo frítt næsta sumar þegar samningur hans er á enda.
Pogba er 28 ára gamall en hann fór frá United árið 2012 til Juventus og fór þá einnig frítt, United keypti hann svo á 89 milljónir punda til baka árið 2016 frá Juventus.
Mino Raiola umboðsmaður Pogba er harður í horn að taka og gæti fengið góðan samning fyrir Pogba næsta sumar ef hann fer frítt frá United.