Wayne Rooney knattspyrnustjóri Derby er byrjaður að sofa reglulega á sófanum á æfingasvæði félagsins til að reyna að bjarga málunum. Derby er í tómu tjóni fjárhagslega og má ekki kaupa leikmenn.
Derby getur fengið leikmenn sem eru án samnings eða á láni og vinnur Rooney nú hörðum höndum að því að laga ástandið. Þá gæti sófinn á æfingasvæðinu heillað á meðan ástandið heima fyrir er ekki eins og best verður á kosið.
Á dögunum skellti Rooney sér á hótelherbergi með þremur ungum stúlkum á meðan eiginkona hans og börn voru í sumarfríi. Það hefur væntanlega ekki farið vel í fjölskylduna.
„Ég verð að leggja mikla vinnu á mig og ég mun gera það,“ sagði Rooney en hann reynir að fá Liam Delap framherja Manchester City á láni. Að auki er hann að vinna í því að fá James Garner og Teden Mengi frá Manchester United.
„Ég svaf á sófanum á skrifstofunni síðasta fimmtudag og ég sef á sófanum í kvöld aftur. Ég er að reyna að fá þessa leikmenn yfir línuna eins fljótt og hægt er.“
Leikmannahópur Derby er þunnskipaður en vonir standa til um að ástandið lagist innan tíðar.