William Saliba hunsaði ráðleggingar Arsenal áður en hann gekk til liðs við Marseille í Frakklandi á láni í sumar.
Hinn tvítugi Saliba er leikmaður Arsenal en hefur leikið á láni með Saint-Etienne og Nice í heimalandinu síðustu tvö tímabil.
Arsenal vildi lána hann til liðs innan Englands svo leikmaðurinn gæti fengið reynslu í ensku úrvalsdeildinni. Það vildi miðvörðurinn ungi ekki.
,,Ég vissi hvar ég vildi spila á þessari leiktíð, á frábærum velli með stuðningsmenn sem ætlast til mikils. Fyrir 20 ára gamlan leikmann getur það aðeins verið gott,“ sagði Saliba um skiptin til Marseille.
,,Það var ég sem valdi Marseille. Arsenal vildi að ég yrði á Englandi en ég vissi að þetta væri rétta ákvörðunin. Ég ýtti og ýtti á eftir þessu.“