Nýr þjálfari Esbjerg í dönsku B-deildinni, Peter Hyballa, er allt annað en vinsæll á meðal leikmanna liðsins sem vilja nú sjá hann fara. Hann er sagður beita afar óhefðbundnum og hörðum aðferðum á leikmenn, bæði andlegum og líkamlegum. BT fjallar um málið.
Hinn þýski Hyballa tók við Esbjerg fyrir rúmum mánuði síðan. Ólafur Kristjánsson var áður stjóri liðsins en hann var látinn fara í vor.
Það sem vekur upp mesta furðu er það að Hyballa beitir andlegum og líkamlegum refsingum á leikmenn. Hann á til að mynda að hafa gripið í leikmann og sagt ,,þú ert með stærri brjóst en konan þín.“
Ef leikmenn mótmæla þá segir hann hluti eins og ,,hver í fjandanum heldur þú að þú sért? Taktu 20 armbeygjur.“
Leikmenn hafa enga þolinmæði fyrir þessu og vilja sjá Hyballa hverfa sem fyrst. Leikmannasamtök Danmerkur munu halda fund í dag til að fara yfir málið.
Ísak Óli Ólafsson og Andri Rúnar Bjarnason eru báðir á mála hjá Esbjerg.