Miðjumaðurinn Pedri var frábær fyrir landslið Spánar á Evrópumótinu sem nú stendur yfir. Hann klikkaði til að mynda ekki á einni sendingu í venjulegum leiktíma í undanúrslitaleiknum gegn Ítalíu í gær.
Pedri er aðeins 18 ára gamall og leikur með Barcelona. Með því að spila leikinn gegn Ítölum í gær varð hann yngsti leikmaður í sögu keppninnar til að leika þegar svo langt er liðið á mótið.
Ekki nóg með það, frammistaða hans vakti einnig mikla lukku. Allar 55 sendingar hans í venjulegum leiktíma rötuðu til að mynda á samherja. Það er ótrúleg tölfræði.
Því miður fyrir Pedri þá datt lið hans þó úr leik í gær. Jafnt var eftir venjulegan leiktíma og framlengingu. Ítalir höfðu svo betur í vítaspyrnukeppni og fara í úrslitaleikinn á sunnudag.
Þar mæta þeir annað hvort Danmörku eða Englandi. Þau mætast í hinu undanúrslitaeinvíginu í kvöld.