Það vakti mikla athygli og fólk var ansi hneykslað á Ciro Immobile í leik Ítala gegn Belgum í 8-liða úrslitum. Immobile fór niður og lá á jörðinni eins og hann væri alvarlega meiddur eftir samstuð við Jan Vertonghen.
En um leið og Nicolo Barrella skoraði mark þá stóð kappinn strax upp og tók þátt í fagnaðarlátunum eins og ekkert hefði í skorist. Bonucci, liðsfélagi Immobile hjá Ítalíu, sagði að liðið hefði gert grín að þessu en það væri eðlilegt að gleði gæti læknað meiðsli.
“Hann fann snertingu og fór niður en gleðin og spennan yfir svona mikilvægu marki þýðir að þú finnur ekki meiri sársauka.”
“Við hlógum að honum og gerðum grín. En nú er þetta búið. Hann er frábær maður en svona hlutir geta gerst á vellinum.“