Ítalía og Austurríki mættust í 16-liða úrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu í kvöld. Ítalir unnu 2-1 sigur eftir framlengdan leik.
Ítalir byrjuðu leikinn betur en áttu í vandræðum með að opna baráttuglaða Austurríkismenn. Þeir fengu nokkur hálffæri en varnarlína Austurríkis var afar örugg.
Austurríkismenn voru líklegri ef eitthvað var í seinni hálfleik en Ítalar sköpuðu sér nánast ekki neitt. Austurríki náði að koma boltanum í netið á 66. mínútu en Arnautovic reyndist vera rangstæður.
Í framlengingu sýndu Ítalir úr hverju þeir eru gerðir og skoruðu tvö mörk í fyrri hálfleik framlengingar. Chiesa skoraði strax á 95. mínútu frábært mark og Pessina tvöfaldaði forystuna tíu mínútum síðar. Kalajdzic minnkaði muninn fyrir Austurríki þegar um sex mínútur voru eftir en lengra komu Austurríkismenn ekki og Ítalir fara áfram í 8-liða úrslit.
Ítalía 2 – 1 Austurríki
1-0 Chiesa (´95)
2-0 Pessina (´105)
2-1 Kalajdzic (´114)