Luis Suarez var ekki hræddur við að skjóta á sitt gamla félag, Barcelona, eftir að hafa tryggt sér Spánarmeistaratitilinn með Atletico Madrid í dag. Hann sagði þá ekki hafa kunnað að meta sig.
Suarez skoraði 21 mark í 32 leikjum með Atletico í La Liga á tímabilinu. Barcelona taldi sig ekki hafa not fyrir hann eftir síðustu leiktíð og leyfði honum því að fara. Kauðverðið var aðeins um 5 milljónir punda. Það borgaði sig svo sannarlega fyrir Atletico.
Hann skoraði sigurmark Atletico í dag gegn Valladolid. Með sigrinum tryggði liðið sér sigurinn í deildinni.
,,Barcelona kunni ekki að meta mig. Þeir vanmátu mig og Atletico opnuðu dyrnar fyrir mig og gáfu mér tækifæri. Ég mun alltaf vera þakklátur þessu félagi fyrir að treysta á mig,“ sagði Suarez í viðtali eftir leik með tárin í augunum.