Rúnar Páll Sigurðsson fékk tilboð um að þjálfa 07 Vestur í færeysku Betri-deildinni á dögunum. Hann hafnaði boðinu. Greint var frá þessu í hlaðvarpsþættinum Dr. Football í gærkvöldi.
Rúnar Páll sagði upp sem þjálfari Stjörnunnar nýlega eftir aðeins einn leik í Pepsi Max-deildinni. Töluvert fjaðrafok var í kringum uppsögnina og hefur mikið verið rætt um ósætti á milli hans og stjórnar félagsins.
,,Hann var kominn með tilboð úr efstu deild þar (í Færeyjum) um að þjálfa lið. 07 Vestur. Þið hafið kannski ekki heyrt um þetta lið á hverjum degi en þeir báru víurnar í (Rúnar). Hann sagði takk en nei takk,“ sagði Kristján Óli Sigurðsson, sérfræðingur þáttarins.
Rúnar Páll þjálfaði Stjörnuna í sjö ár og náði frábærum árangri. Hann mun án efa vera á blaði hjá félögum hér heima í sumar ef lið fara í þjálfaraleit.
Smelltu hér til að hlusta á þátt Dr. Football frá því í gær.