fbpx
Föstudagur 14.maí 2021
433Sport

Ítarlegt viðtal við Arnar Þór – Lagerback vegur upp á móti veikleikum hans og Eiðs Smára

Aron Guðmundsson
Fimmtudaginn 4. mars 2021 21:33

Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu var gestur í fyrsta þætti 433.is sem hóf göngu sína á þriðjudaginn.

Arnar tók við starfi landsliðsþjálfara í desember af Erik Hamrén. Fyrstu mánuðir Arnars í starfi hafa verið strembnir. Eiður Smári er aðstoðarþjálfari landsliðsins og gamalkunnugt andlit var ráðið í starfslið landsliðsins um daginn en Lars Lagerback, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands, er nýr tæknilegur ráðgjafi íslenska karlalandsliðsins.

„Fyrstu tveir mánuðirnir hafa aðallega farið í greiningarvinnu. Fyrsta sem við gerðum var að púsla saman starfsliðinu og það kláraðist núna fyrir nokkrum vikum þegar að við náðum samkomulagi við Lars Lagerback að stíga inn í þetta með okkur aftur.Svo hefur maður verið í sambandi við leikmenn, fylgjast með leikjum og byrja greina andstæðinga. Bara þessi týpísku verk,“ segir Arnar Þór, landsliðsþjálfari.

Rafrænir fundir á tímum Covid-19

Arnar tekur við starfi landsliðsþjálfara Íslands á sérstökum tímum. Covid-19 heimsfaraldurinn hefur séð til þess að allt það sem teljast eðlileg samskipti hefur verið erfitt að fylgja eftir. Í stað funda þar sem Arnar hittir leikmenn landsliðsins á sama stað, hefur hann fundað með þeim rafrænt.

„Þetta er svolítið leiðinlegt, það er svosem ekkert að því að taka gott símtal við leikmennina en maður vildi náttúrlega helst geta hitt leikmenn. Þú getur náttúrulega aldrei hitt alla á tveimur eða þremur mánuðum en við erum að reyna að bæta upp fyrir þetta og taka fundi á Teams en það er bara ekki það sama.“

Hann segist hins vegar að þetta skipti ekki höfuðmáli, leikmenn landsliðsins séu margir hverjir mjög reyndir og að best sé að pirra sig ekkert á hlutum sem maður hefur ekki stjórn á.

„Maður finnur það á drengjunum að þeir eru mjög faglegir í öllu þessu og margir hverjir með mikla reynslu þannig að við kippum okkur ekkert upp þetta ástand. Við stjórnum bara því sem við getum stjórnað og hinu leyfum við bara að liggja út í horni.“

Einblínir á styrkleikana og telur að koma Lars hafi bara góð áhrif

Arnar telur að koma Lars Lagerback í starfslið landsliðsins muni aðeins hafa góð áhrif.  Hann komi með mikla reynslu í starfsliðið meðal annars eftir að hafa átt farsælan tíma með íslenska landsliðið.

„Ég lít einfaldlega á þetta þannig að maður þarf að gera sér grein fyrir því hverjir séu mínir styrkleikar, styrkleikar Eiðs og hverjir eru okkar veikleikar. Ég tel að það gildi það sama með þjálfara og leikmenn, sem þjálfari vill maður leita að styrkleikum leikmannanna og reyna að útiloka það sem þeir eru ekki góðir í.“

Lars komi til með að geta vegað upp á móti veikleikum hans (Arnars) og Eiðs Smára.

„Það er alveg sama með þetta. Ég hugsaði þetta þannig alveg frá byrjun að þetta gæti bara verið gott fyrir mig og okkur að fá hans reynslu og gæði inn í þetta akkúrat til þess að sparsla upp í þessi göt sem voru í ostinum. Ég er alveg pottþéttur á því að þetta verður til þess að styrkja okkur verulega.“

Ábyrgðin liggur hjá þjálfaranum ef illa gengur

Ábyrgðarhlutinn er skýr hjá Arnari sem er að halda af stað í sína fyrstu undankeppni með A-landsliðið.

„Ég hef alltaf verið mjög hreinn og beinn með það, ef liðið spilar vel og vinnur þá er það leikmönnunum að þakka, ekki mér og starfsliðinu. Sá heiður á alltaf að stærstum hluta að fara til leikmannanna. Þegar að gengur illa þá er það þjálfarinn sem ber ábyrgðina.“

Arnar Þór Viðarsson var ráðinn landsliðsþjálfari í desember

Þjálfari liðsins verður að mati Arnars að vera með á nótunum og sjá til þess að hópurinn virki sem ein heild.

„Það er ábyrgð þjálfarans að sjá til þess að öll þessi púsluspil falli saman. Þetta snýst ekki bara um þá ellefu leikmenn sem byrja leikina heldur snýst þetta um allan hópinn og starfsliðið sem þarf að vinna saman. Í nútímafótbolta er það einfaldlega þannig að það er þjálfarans að stýra þessu og sjá til þess að öll púsluspilin falli saman. Maður getur reynt að neita fyrir það og búið til afsakanir en fótbolti virkar bara svona og það er bara fínt.“

Hugmyndafræðin skýr

Landsliðið mun spila eftir hugmyndafræði Arnars og Eiðs en þeir unnu saman við góðan orðstír hjá u-21 árs landsliðinu sem tryggði sér sæti á lokamóti í fyrsta skipti í mörg ár. Arnar hundsar þó ekki þann árangur sem landsliðið náði undir stjórn Lagerback.

„Hann (Lagerback) kemur nálægt leikkerfinu en þeir fundir sem við höfum átt við hann um leikkerfið hafa beinst svolítið mikið að okkar styrkleikum, venjum og erfðaefni. Íslensk knattspyrna er þekkt fyrir ákveðinn leikstíl og að sjálfsögðu hefur sá frábæri árangur sem náðst hefur, náðst í leikkerfinu 4-4-2, stundum í 4-4-1-1. 

GettyImages

„Það var mikilvægt fyrir mig, Lars og Eið Smára að við værum að tengja saman í hugmyndafræðinni, leikkerfið sjálft var ekki til umræðu. Við erum með ákveðna hugmyndafræði og eftir nokkra fundi var Lars til í þetta en það er ekkert sem segir það að við munum aldrei spila 4-4-2. Það geta komið upp allskonar aðstæður fyrir leiki eða á meðan leik stendur.“

„Mín hugmyndafræði byggist á leikkerfinu 4-1-4-1, 4-3-3 eða hvernig sem þú vilt kalla það, 4-5-1 svona eins og við höfum verið að spila með u-21 árs liðið. En hver og einn leikur á sitt eigið líf og það getur margt gerst í einum fótboltaleik. Það er bara á ábyrgð okkar starfsliðsins að geta brugðist við ef þess þarf.“

Hefur ekki áhyggjur af meiðslavandræðum lykilmanna

Lykilleikmenn Íslands undanfarin ár hafa margir hverjir vera að glíma við meiðsli. Helst ber að nefna Aron Einar Gunnarssson, Jóhann Berg, Alfreð Finnbogason og Ragnar Sigurðsson. Arnar hefur þó ekki teljandi áhyggjur af þessum málum.

„Ég er bara bjartsýnn og alveg jafn bjartsýnn núna og ég var fyrir tveimur, þremur vikum. Það var slæmt fyrir Jóhann Berg að fá þetta bakslag með sínum meiðslum en hann er byrjaður að æfa aftur og maður vonast til þess að hann geti spilað um næstu helgi.“

„Þetta eru mjög mikilvægir leikmenn fyrir íslenska landsliðið en svo eru líka aðrir leikmenn og það er bara mjög gott stand á þeim nánast öllum. Raggi Sig hefur kannski ekki verið að spila undanfarið en var í fyrsta skipti í leikmannahóp síns liðs um daginn.“

Styttist í fyrstu prófraunina

Fyrsti leikur Íslands undir stjórn Arnars og Eiðs Smára verður gegn Þýskalandi í undankeppni Heimsmeistaramótsins. Leikurinn fer fram þann 25. mars næstkomandi í Þýskalandi.

„Það eru rúmar tvær vikur í að við tilkynnum hópinn, það getur enn þá mikið breyst í hvora áttina sem er og við vonum að það verði bara jákvætt. Undanfarin tvö ár hefur verið erfitt fyrir okkur að pússla saman okkar besta liði en ég er bara bjartsýnn.“

„Við viljum helst bara fá þá leikmenn til liðs við okkur sem eru virkilega leikhæfir, það er ekki gott að vera koma inn í landsliðið og vera bara með 2, 3 æfingar að baki og einhver meiðsli upp á þrjár vikur eða mánuð.“

Óvissa um markvarðarstöðuna

Óljóst er hver verður aðalmarkvörður landsliðsins. Hannes Þór Halldórsson, hefur varið mark íslenska liðsins með mikilli prýði en Ögmundur Kristinsson og Rúnar Alex Rúnarsson, gera einnig tilkall til sætis í byrjunarliðinu.

„Það eru þessir þrír markmenn sem koma til greina og ef ég á að vera hreinskilinn þá höfum við ekki tekið ákvörðun um það hver mun vera í markinu á móti Þjóðverjum. Við höfum átt samtal við alla þessa þrjá markmenn og við tókum þá ákvörðun mjög snemma að þegar við komum allir saman og þegar fer að draga aðeins nær þessu þurfum við að fara koma þessu byrjunarliði aðeins betur saman. Í dag eiga allir þessir þrír markmenn möguleika á að byrja gegn Þýskalandi.“

Hannes Þór Halldórsson hefur varið mark íslenska landsliðsins með prýði undanfarin ár

Mikið leikjaálag framundan – Þrír leikir á sex dögum

Íslenska landsliðið hefur leik í undankeppni Heimsmeistaramótsins með þremur útileikjum á sex dögum. Í þokkabót bætast við ferðalög milli leikstaða og ljóst er að álagið á leikmenn verður mikið.

„Við erum að byrja nýja og mikilvæga undankeppni á þremur útileikjum þar sem flækir þetta líka eru ferðalögin sem eru mjög erfið og löng. Annar vinkill á þessu er sá að það er mjög erfitt að láta leikmann spila þrjá leiki á þessum dögum.“

Aðspurður segist Arnar ekki ætla að fórna leiknum gegn Þýskalandi gegn því að geta átt betri möguleika í seinni tveimur leikjunum gegn Armeníu og Liechtenstein sem eru á pappír töluvert lakari knattspyrnuþjóðir.

„Ég get ekki hugsað mér að henda einhverjum leik bara í hundana, það er bara því miður ekki til í minni hugsun. Við viljum ekki henda leiknum í hundana, við þurfum að vera með mjög góða stjórnun á þessum leikjum. Það er fullt af möguleikum en það er ómögulegt að spila þessa þrjá leiki á ellefu leikmönnum, við munum þurfa allan hópinn.“

„Horfi bara á Kára sem leikmann fyrir verkefnið í mars“

Kári Árnason hefur verið mikilvægur hlekkur í vörn íslenska landsliðsins undanfarin ár. Hann hefur nú opinberlega lýst yfir áhuga á því að taka við starfi yfirmanns knattspyrnumála hjá KSÍ, starfi sem Arnar gegndi fyrstur hjá sambandinu.

„Ég hef rætt þetta við Kára og mér finnst þetta frábært, þetta er í raun bara heiður fyrir okkur á knattspyrnusviðinu og KSÍ að menn séu farnir að sækjast eftir þessu starfi. Þetta var svolítið óljóst fyrir tveimur árum þegar að ég byrjaði hvernig starf þetta væri en nú er þetta orðið áhugavert starf. Mér finnst mjög ánægjulegt og áhugavert að okkar reyndustu leikmenn séu að sækjast eftir störfum innan hreyfingarinnar, það er bara jákvætt.“

Kári Árnason

Arnar lítur hins vegar á Kára sem leikmann fyrir komandi verkefni íslenska landsliðsins, að minnsta kosti á meðan hann hefur ekki verið ráðinn sem yfirmaður knattspyrnumála.

„Leikmenn og sterkir persónuleikar eins og Kári, við eigum að sjálfsögðu að halda þeim inn í okkar starfi. Ég horfi bara á Kára sem leikmann fyrir verkefnið í mars, hann hefur ekkert með starf yfirmanns knattspyrnumála að gera fyrr en annað hefur verið ákveðið,“ sagði Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari Íslands.

Hægt er að sjá fyrsta þátt 433.is hér fyrir neðan. Nýr þáttur er sýndur vikulega á þriðjudögum klukkan 21:30 á sjónvarpsstöðinni Hringbraut.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Er ein skærasta stjarna Liverpool í fýlu við Klopp – Sjáðu hvað gerðist í gær?

Er ein skærasta stjarna Liverpool í fýlu við Klopp – Sjáðu hvað gerðist í gær?
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Sjáðu einkunnir úr leik Breiðabliks og Keflavíkur

Sjáðu einkunnir úr leik Breiðabliks og Keflavíkur
433Sport
Fyrir 19 klukkutímum

Pepsi Max-deild karla: Víkingar lögðu Stjörnuna í Garðabæ

Pepsi Max-deild karla: Víkingar lögðu Stjörnuna í Garðabæ
433Sport
Fyrir 20 klukkutímum

Pepsi Max-deild karla: Markaflóð í lokin í Hafnarfirði – FH enn og aftur manni fleiri

Pepsi Max-deild karla: Markaflóð í lokin í Hafnarfirði – FH enn og aftur manni fleiri
433Sport
Fyrir 23 klukkutímum

Leikmenn beggja liða mættir á Old Trafford – Svona eru byrjunarliðin

Leikmenn beggja liða mættir á Old Trafford – Svona eru byrjunarliðin
433Sport
Fyrir 23 klukkutímum

Lengjudeild karla: Tíu leikmenn Grindavíkur steinlágu á Akureyri

Lengjudeild karla: Tíu leikmenn Grindavíkur steinlágu á Akureyri
433Sport
Í gær

Hörmungarástand á Akureyri og lausn ekki í sjónmáli: „Það er að okkar mati hneisa“

Hörmungarástand á Akureyri og lausn ekki í sjónmáli: „Það er að okkar mati hneisa“
433Sport
Í gær

Líkleg byrjunarlið í kvöld þegar Liverpool verður að vinna United

Líkleg byrjunarlið í kvöld þegar Liverpool verður að vinna United