fbpx
Laugardagur 19.júní 2021
433Sport

Kaffistofuspjall orðið að fyrirsögnum í dag

Hörður Snævar Jónsson
Mánudaginn 18. maí 2020 21:47

Fréttablaðið / Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á bensínstöð í Kópavogi hafði blaðamaður mælt sér mót við einn merkilegasta íþróttamann Íslands á síðustu árum. Hannes Þór Halldórsson, markvörður íslenska landsliðsins, hefur mikið verið í sviðsljósinu síðustu ár fyrir afrek sín innan sem utan vallar. Við byrjum á að spjalla um daginn og veginn, en Hannes og eiginkona hans Halla Jónsdóttir eignuðust sitt þriðja barn á dögunum. Fyrir ári fluttist fjölskyldan heim eftir að hafa flakkað um Evrópu, en þau höfðu stoppað stutt við í Aserbaídsjan áður en þau komu heim.

„Það hefur verið mjög ljúft að vera aftur á Íslandi, það var komin heimþrá í okkur. Það var tilhlökkun að spila heima, en tímabilið í fyrra var ekki auðvelt fyrir neinn á Hlíðarenda,“ sagði Hannes þegar við ræddum um heimkomuna.

Það þóttu stórtíðindi þegar besti markvörður í sögu Íslands ákvað að koma heim, maðurinn sem varði vítaspyrnu frá Lionel Messi gekk í raðir Vals og væntingarnar voru miklar. Valur olli hins vegar gríðarlegum vonbrigðum síðasta sumar, en allir töldu það formsatriði að liðið yrði Íslandsmeistari. „Það er ekkert ólíklegt að umræðan um að þetta væri formsatriði fyrir Val hafi haft áhrif á leikmenn. Það er aldrei hollt að fara inn í tímabil og halda að þú labbir yfir hlutina. Sérstaklega í þessari deild, þrátt fyrir að lið hafi kannski meira bolmagn en önnur. Það dugar ekkert, bestu liðin hérna eru svo jöfn. Þó svo að einhver sé með forskot, það kemur ekkert af sjálfu sér. Allir leikir eru erfiðir og það þarf allt að smella til að vinna þessa deild. Þú þarft augnablikið með þér og samheldni, því náði KR. Þú færð sjálfstraust og menn verða meiri vinir í kjölfarið, það er bolti sem fer að rúlla. Það virkar alveg eins í hina áttina.“

Fréttablaðið / Sigtryggur Ari

Öll spjótin stóðu á Hannesi
Sökum þess hversu stórt nafn Hannes er í íslenskri fótboltasögu þá var athyglin á honum, mistökin sem hann gerði urðu að stórfrétt og þegar hann átti frábæra leiki þótti það sjálfsagt í augum margra. „Ég fékk mikinn hita fyrir síðasta tímabil og ég get alveg skilið það. Mér fannst frammistaðan ekki hafa verið nálægt því að vera eins léleg og talað var um, mér fannst hún fín. Ef ég hefði verið í liði á góðu skriði, þá hefðu góðu leikirnir talið og hlutirnir þróast öðruvísi. Ég var hluti af liði Vals sem var upp og niður, það kom augnablik þar sem ef ég hefði átt frábæran leik og við unnið og endað hátt, þá hefði allt orðið öðruvísi. Í staðinn þá átti ég minn versta leik, mín tvö verstu augnablik gegn ÍBV á útivelli. Bæði mörkin eru ljót og þetta er rétt fyrir landsleiki, svona augnablik verða eftirminnileg og þau setjast í minnið á mönnum. Ég var ánægður með frammistöðuna að mörgu leyti, ég skil það alveg að það er sviðsljós á mér. Ég kem heim með pressu á mér og Valur átti að gera góða hluti, auðvitað er kjamsað á því. Það er þórðargleði þegar hlutirnir ganga ekki upp, þó ég sé ekki sammála sleggjudómum, en ég skil þetta.“

Hannes segist skilja það að umræðan sé mikil og að spjótin beinist að honum. Hann er þó á þeirri skoðun að umræðan á Íslandi hafi breyst mikið á síðustu árum. „Það er þannig að það er verið að búa til skemmtun og maður verður að sýna því skilning. Það hefur breyst í umfjöllun hér heima, umræðunni núna er stjórnað af hlaðvarpi. Þar sitja menn í einn og hálfan tíma og alls konar hlutum hent fram, menn passa sig minna. Svo er það sem er mest djúsí þar tekið og sett fram í fyrirsagnir, og fréttir verða til út frá því. Þar með verður umræðan miklu meiri um hluti sem hefðu bara fjarað út á kaffistofum í gamla daga, það eru fyrirsagnir í dag. Hitinn á mönnum verður miklu meiri, ég fann þetta og þetta var augljós munur. Þegar ég er að byrja þá eru þetta bara Pepsi mörkin og það er mjög auðvelt að sleppa því að horfa á þau, eins og þetta er í dag þá er þetta alls staðar. Þú tekur ekki upp símann nema að fá þetta í andlitið, þetta er
að mörgu leyti jákvætt. Umfjöllunin er meiri og maður getur ekki kvartað undan því að áhuginn sé til staðar þegar maður er í þessu. Það er samt í góðu lagi að bölva þessu í hljóði þegar manni finnst einhverjir vitleysingar vera að segja eitthvert bull.

Hannes Þór með félögum sínum úr landsliðinu í brúðkaupinu fræga.

Allt fór á hliðina þegar hann mætti í brúðkaup
Allt fór á annan endann þegar Hannes skellti sér í brúðkaup Gylfa Þórs Sigurðssonar og Alexöndru Helgu Ívarsdóttur á síðasta ári. Hannes var að glíma við meiðsli hjá Val og þáverandi þjálfari liðsins sagði honum að skella sér út og fagna með góðum vini. „Mér fannst breytingin á umfjöllun hér heima kristallast þar, þetta magnast upp. Það eru nokkrir hlaðvarpsþættir og þeir taka úr hvor öðrum, svo koma fréttamiðlar og taka það sem er mest djúsi. Það er alveg skiljanlegt að umræðan um þetta hafi átti sér stað,“ sagði Hannes þegar hann rifjaði upp atvikið. Atvikið varð enn stærra þegar Ólafur Jóhannesson, þá þjálfari Vals, sagðist ekki hafa hugmynd um það hvernig Hannes hefði meiðst.

„Óli er bara ólíkindatól í viðtölum og var ekkert að meina með þessu, það fauk í hann þegar hann fékk þessa spurningu. Það hefði verið hægt að afgreiða þetta eins og fór okkar á milli, hann vildi ekki taka neinn séns. Það stóð ekki til að fara þarna út og svo kom þetta upp, að ég var tæpur og stutt í leik, þá var alveg eins gott að gefa mér pásu. Hann vildi leysa þetta og sparkaði í rassinn á mér og sagði mér að fara. Það hefði vissulega verið fínt að því hefði verið haldið á lofti, Óli er stórkostlegur karakter og týpa.“

Mynd: Valli

Stórmót væri heppilegur tímapunktur til að hætta
Hannes hefur varið mark íslenska landsliðsins á meðan liðið hefur blómstrað og þjóðin hefur heillast. Hannes er 36 ára gamall og hefur velt því fyrir sér hvenær hann hættir að leika með landsliðinu. Tímapunkturinn gæti komið á næsta ári. „Það verður að viðurkennast að stórmót er heppilegur tímapunktur að hætta, ef við komumst þangað. Ef við komumst á þriðja stórmótið er það stórkostlegur árangur fyrir Ísland, að vera partur af slíku væri algjört ævintýri. Maður skoðar það þá, það er pottþétt að allir eru að fara að gefa allt í þetta, til að komast inn á þetta mót. Hvort ég hefði hætt í sumar eða ekki, veit ég ekki. Ég er alltaf eitthvað að hugsa og plana framtíðina og það getur alveg verið að það hefði farið þannig. Það kemur alltaf tími á kynslóðaskipti, ég er með tvo frábæra markmenn á eftir mér. Ég ætla að halda mér í þessu liði fram yfir Evrópumótið og svo tekur maður stöðuna.“

Til að Hannes haldi sæti sínu í landsliðinu þarf hann að blómstra með Val og hann er spenntur fyrir nýjum tímum þar. Heimir Guðjónsson var ráðinn þjálfari liðsins og bjartsýni ríkir á Hlíðarenda. „Það gengu allir út úr síðasta tímabili með sært stolt og eru staðráðnir í að bæta upp fyrir það, allt sem gat farið úrskeiðis á síðustu leiktíð, fór úrskeiðis. Tímabil sem situr eftir með leiðindaminningar og það eru allir sammála um það. Það eru allir staðráðnir í að snúa við blaðinu.“ Kærkomið frí frá fótbolta Íslenski boltinn fer af stað 13. júní en Hannes og aðrir íþróttamenn voru settir í frí vegna kórónaveirunnar.

Mikið álag og áreiti hefur verið á Hannesi síðustu ár og hann tók fríinu fagnandi. „Ég viðurkenni að þetta var öðruvísi frí en ég hef fengið, ég fékk að taka mér mánuð í frí eftir landsleikina í nóvember. Ég fékk mikið að heyra það frá liðsfélögum mínum, af því að þeir voru byrjaðir að æfa. Það er ekki tekið mikið tillit, ég er búinn að vera mjög mikið á keyrslu og með fótinn á bensíninu síðustu ár. Ég var að skipta um deildir sem stangast á, fara úr sumardeild í vetrardeild og öfugt. Þó að maður hafi fengið einhver frí hér og þar, þá er það öðruvísi. Þetta var í fyrsta skipti sem maður gat slakað alveg á, það var bannað að gera hluti. Maður gat verið afslappaður og virkilega hlaðið batteríin.“

Fréttablaðið / Sigtryggur Ari

Einn færasti leikstjóri þjóðarinnar
Frá unga aldri hefur Hannes mundað myndavélina og gert það gott sem leikstjóri sjónvarpsþátta og auglýsinga. Atvinnumennirnir okkar, Mannasiðir Gillz og fleiri þættir hafa verið í umsjón Hannesar. Hann hefur svo framleitt auglýsingar fyrir stór fyrirtæki. „Ég er byrjaður að daðra við þann bransa aftur, ég hef verið að vinna töluvert frá því að ég kom heim, án þess að flagga því. Ég er kominn á gott skrið, síminn hringir og það er nóg að gera. Ég gæti farið á fullt í það en fótboltinn er í forgangi og maður má ekki gleyma því, það er númer eitt, tvö og þrjú. Mér gengur oft vel þegar ég er að gera bæði, styður við hvort annað. Ég gerði auglýsingu rétt fyrir HM í Rússlandi, það gekk vel. Mér finnst gaman að vera í báðu,“ sagði þessi geðþekki knattspyrnumaður þegar við höfðum klárað kaffibollann og fórum hvor í sína áttina af þessari fjölförnu bensínstöð.

Stærsta stund Íslands á HM
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Kærir klámsíðu fyrir að birta efni án hennar samþykkis

Kærir klámsíðu fyrir að birta efni án hennar samþykkis
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Sjáðu myndbandið: Stuðningsmenn slógust í Lundúnum

Sjáðu myndbandið: Stuðningsmenn slógust í Lundúnum
433Sport
Fyrir 20 klukkutímum

Mígandi tap hjá United í upphafi árs

Mígandi tap hjá United í upphafi árs
433Sport
Fyrir 20 klukkutímum

Svíþjóð sigraði Slóvakíu – Emil skoraði eina markið

Svíþjóð sigraði Slóvakíu – Emil skoraði eina markið